24. nóvember 2008

Kreppuráð #10

Þessi kreppuráð mín hafa fengið mun betri móttökur en ég átti nokkru sinni von á. Þegar ég byrjaði að skrifa þau hélt ég kannski að einhver einn eða jafnvel tveir hefðu áhuga á að lesa þau!

Ég er eiginlega alveg orðlaus yfir því hvað þau hittu mark og þakka fyrir það :) Vonandi hafa þau hjálpað einhverjum þó ekki væri nema við að brosa út í annað :)

Kreppuráð mitt #10 fjallar einmitt svolítið um það. Það er nefnilega alveg nauðsynlegt stundum að gleyma amstri dagsins og skilja áhyggjurnar eftir fyrir utan veggi heimilisins og brosa

Kreppuráð #10 er því:

Láttu eins og fífl!

Já, stundum er gott að láta eins og fífl. Þegar verulega reynir á og heimurinn virðist að hruni kominn þá er nauðsynlegt að reyna að gleyma aðstæðum um stund og leyfa sér að láta eins og fífl. Þá meina ég, leyfa barninu í sér að koma fram. Það hressir andann og fær mann til að hlæja, eða í það minnsta brosa í kampinn :)

Þá er ég ekki endilega að tala um að láta eins og fífl við aðra eða úti á götu (þó það sé nú samt alltaf svoldið gaman) heldur frekar heima við með fjölskyldunni, gantast og gera gys.

Ég skal nefna dæmi:

Fjölskyldan mín heldur oft partý á föstudagskvöldum. Þá færum við öll húsgögnin til í stofunni, búum til dansgólf, kveikjum á tónlist og syngjum og dönsum. Oft klæðum við okkur upp í hallærisleg föt eða syngjum í kústsköft og gaffla nú eða dönsum bjánadansa.

Þá þýðir ekkert að taka sig of hátíðlega. Það verður allt svo miklu skemmtilegra ef maður hefur ekki alltaf áhyggjur af því hvað öðrum finnst. Leyfðu þér að haga þér stundum eins og fífl, krakkarnir elska það, ég get lofað því, þeim finnst foreldrar sem hoppa og skoppa og dansa og syngja í gaffla og kústa alveg einstaklega fyndnir og skemmtilegir :) og makanum finnst það líka fyndið og ef enginn er makinn eða krakkinn, bjóddu þá einhverjum vini eða vinum í náttfatapartý þar sem þið hagið ykkur eins og fífl

Þetta kallar líka fram hlátur og hláturinn lengir jú lífið og léttir lundina.

Manni líður betur á eftir og um stund, þó ekki væri nema um stundarkorn gleymir maður áhyggjum lífsins.

Ef þið treystið ykkur til getið þið svo tekið þetta skrefinu lengra og fíflast og sungið í búðinni eða á læknabiðstofunni eða bara sleppt ykkur í bílnum, hækkað í uppáhaldslaginu í botn og sungið af öllum lífs og sálarkröftum :)

Að lokum langar mig að ítreka að ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið að ég tali um eða svari þá megið þið alveg spyrja, alveg sama hversu fáránleg ykkur kann að þykja spurningin.

Gangi ykkur allt best í haginn og góða skemmtun!

kv, Lára

4 ummæli:

  1. Sæl Lára.
    Þessi kreppuráð þín eru alveg frábær og mörg þeirra eiga við þó það sé ekki kreppa ... t.d. þakklætið. Verum þakklát fyrir það sem við höfum og lærum að meta "litlu" hlutina í lífinu - þeir eru bestir. :-)
    Gangi þér vel - ég fylgist með síðunni þinni.
    kv. Birna María

    SvaraEyða
  2. Takk kærlega fyrir frábæran fyrirlestur í kvöld á Skagaströnd. Ég er nú þegar farin að hugsa um matseðilin fyrir desember.
    Kveðja, Ólafía Lár.

    SvaraEyða
  3. hvernig væri að við settum inn uppskriftir og annað af ódýrum saðsömum mat sem allir geta notað og hjálpast þannig að kveðja

    SvaraEyða
  4. Sæl Lára

    Ég dáist af því hvernig þú vinnur þig í gegnum vandarmálin. Veit af eigin raun að það er ekki létt verk eftir fjárhagslegt skipsbrot.
    Ég fæ enn sting í magann við það að fá gluggapóst og skiptir engur hvort það er greiðsla eða rukkun. Mikið varð ég fegin að geta afboðað þessar hörmungar um lúguna. :)

    Mín leið til að sofna á kvöldin er sáraeinföld......

    Ég tel líkamanum trú um að hann sé þungur og slakur, þannig hugleiði ég mig í svefn.

    Létt verk?...Nebb ekki fyrir mig

    Tökum dæmi eins og í gær..fæturnir eru þungir...fæturnir eru þungi....af hverju ætlar María að kaupa þetta ...já...fæturnir eru þungir...fæ...vá rokið vonandi snjóar á jólunum...þá helst á....fæturnir eru þungir..fæt...núna verð ég að stytta TALSVERT en ég sofnaði að endanum og svaf vel í nótt. Reyndar er ég ekki frá því að tíminn sem fer í ná taki á fiðrildinu er alltaf að styttast.

    Ég ætla að fara að þínum ráðum og þakka fyrir það góða..Takk fyrir að skrifa þessi ráð og takk fyrir að vera til

    Kveðja
    Anna Dóra G

    SvaraEyða