Jæja,
er loks sest niður til að setja á blað kreppuráð #2. Síðast talaði ég um hversu gott sé að þakka. Kreppuráðið mitt núna er:
Mundu!
Já, það hljómar kannski einkennilega en þetta er það sem ég á við:
Þegar skóinn kreppir að í fjármálum heimilanna þá koma oft upp deilur milli hjóna. Fjárhagserfiðleikar eru algengari orsök skilnaða en framhjáhald. Því er mjög mikilvægt að mínu mati að muna.
Munið eftir hvoru öðru. Munið hvers vegna þið fóruð að vera saman til að byrja með og munið hvað hefur haldið ykkur saman.
Munið eftir að vera góð við hvort annað og munið eftir að gleðja. Það er alveg hægt að gefa þó peningarnir séu af skornum skammti.
Einu sinni langaði mig í gítar í jólagjöf. Maðurinn minn tók sig til og bjó til gítar úr mandarínukassa og spítu og setti snæri sem strengi. Auðvitað var ekki hægt að spila á gítarinn en það skipti ekki máli, það var hugsunin á bak við gítarinn sem skipti öllu.
Ef illa gengur í sambandinu og þér finnst allt í einu eins og allt sé búið spil þá er mjög gott ráð að sækja myndaalbúmið og skoða gamlar myndir. Myndir af ykkur þegar þið voruð hamingjusöm. Þegar þú hefur fundið aftur ástæðuna fyrir sambandinu, biddu þá maka þinn um að setjast við hlið þér og rifja upp gamla tíma.
Munið líka að eyða tíma saman. Það þarf ekki að kosta peninga. Nægir að dimma ljósin og kveikja á kerti, taka fram spilastokk og spila á spil. Nú, svo er líka hægt að fara í stuttan göngutúr og leiðast hönd í hönd.
Ef erfiðlega gengur að gefa sambandinu tíma þá takið hann frá í dagbókinni, svona eins og um mikilvægan fund væri að ræða.
9. nóvember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli