Ég ætlaði aldrei að gera það að aðalatvinnu minni að skrifa kreppuráð. Fannst 10 stykki alveg hæfilegt. Þetta kreppuráð er því ekki eins og hin ráðin en byggir á þeim fundum sem ég hef haldið um málið (eða fyrirlestrum eftir því hvernig á það er litið).
Ég hef sumsé farið á þónokkra staði og sagt frá reynslu minni af samdrætti og fjárhagserfiðleikum undir yfirskriftinni: ,,Hagsýni og hamingja - hvernig lifa má af litlu með bros á vör"
Ég hef verið mikið spurð að því hversu miklu skuli eyða í mat og hvernig hægt sé að spara. Ég hef komist að því að ég get komist af með 60.000 krónur í mat á mánuði eða 2000 krónur á dag. Þar er minn sársaukaþröskuldur ef svo má að orði komast.
Matseðill dagsins gæti verið:
Morgunmatur: Hafragrautur
Hádegismatur : Grillað brauð með osti og djús (blandaður frá Egils)
Kaffi : Hrökkbrauð eða brauðbollur með osti og mjólk
Kvöldmatur: Kjúklingapottréttur og hrísgrjón ásamt brauðbollum með smjöri (kaupi frosnar bollur í bónus fyrir lítinn aur). Vatn
Slíkur dagur kostar þá um um 1000 krónur fyrir alla fjölskylduna!
Þá get ég verið með einhvern annan dag þá vikuna matseðil sem kostar 3000 krónur:
Morgunmatur: Cheerios
Hádegismatur: Núðlusúpa og brauðbollur. Vatn
Kaffi: Ristað brauð með osti og tómötum, mjólk eða blandaður djús
Kvöldmatur: Svínakótilettur með kartöflum, gulum baunum og sinnepssósu. Tilboðsgos (oft hægt að kaupa 2 lítra af gosi í Bónus á innan við 100 krónur)
Þannig er hægt að vera með betri máltíðir um helgar og ódýrari á virkum dögum.
Ef ég kaupi einn kjúkling þá dugar það ekki fyrir alla fjölskylduna mína í eina máltíð. Ef ég kaupi hins vegar þrjá kjúklinga dugar það í þrjár máltíðir. Hvernig?
Jú, ég úrbeina þá, bringurnar eru þá í eina máltíð, leggir, vængir og læri í aðra máltíð og svo grilla ég beinagrindina og ,,pilla" kjötið af og nota í pottrétt :)
Auðveldasta leiðin til að skera niður í rekstri heimilisins er að mínu mati í matarinnkaupum. Með skynsemi og skipulagni er sumsé hægt að brauðfæða mína fjölskyldu sem samanstendur af 7 manns með 60.000 krónum og vel það
Ég get komist af með minna en þá fer það aðeins að bitna á magninu. Þegar ég var sem allra blönkust keypti ég nákvæmlega það magn sem á þurfti að halda. Taldi ofan í fjölskylduna. Það þýddi að fjölskyldan varð aldrei pakksödd.
Það er allt í lagi. Er ekki hvort sem er óhollt að borða yfir sig?
5. desember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli