Það er eiginega við hæfi að þetta kreppuráð fjalli um atvinnumissi. Þar sem ég er svo heppin að hafa áður gengið í gegnum slíkt þá veit ég núna hvað ég á ekki að gera og hvernig ég vil takast á við það í þetta sinn.
Kreppuráð #5 Vertu viðbúinn
Já, það er afar mikilvægt. Þegar maður missir vinnuna þá verður maður fyrst sár og reiður og á það til að velta því fyrir sér lon og don hvað maður gerði rangt og hvers vegna maður sjálfur var rekinn en ekki einhver annar. Það er fullkomlega eðlilegt. Það er líka eðlilegt að syrgja vinnuna og félaga en maður verður að vera afar meðvitaður um það að láta atvinnumissi ekki buga sig.
Þá hef ég gripið til þakklætisins sem ég minntist á í fyrra kreppuráði.
Þegar ég hins vegar tala um að vera viðbúinn þá á ég við þetta: Flestir eru með uppsagnarfrest. Notaðu hann vel. Reyndu að vera bjartsýnn á að þú fáir vinnu fljótlega en ekki taka því sem gefnu. Best er að átta sig á því strax að það gæti gerst að maður fái enga vinnu og þurfi því að lifa á atvinnuleysisbótum.
Bæturnar eru um 130.000 krónur á mánuði auk ca. 5000 króna fyrir hvert barn undir 18 ára. Það segir sig því sjálft fyrir flest okkar að það dugar engan veginn. Því verður maður að nota uppsagnarfrestinn til að vera viðbúinn því sem koma skal.
Sestu niður (með makanum ef þú átt slíkan) og farðu yfir þá reikninga sem þarf að borga. Farðu vel yfir hvaða skuldir er hægt að greiða niður á uppsagnartímabilinu, hvaða skuldir er hægt að greiða af eins og venjulega og hvaða skuldir er hægt að reyna að semja um. Ef þú átt maka þá skiptir gríðarlega miklu máli að hann taki þátt í öllu ferlinu ef vel á að fara.
Gerðu plan, áætlun í fjármálum heimilisins og helst eins fagmannlega og er mögulegt. Síðan ferðu með áætlunina með þér til lánastofnana sem þú ætlar að reyna að semja við.
Það eykur líkurnar á að samið verði við þig vegna þess að þá er greinilegt að þú veist um hvað þú ert að tala og hefur ígrundað mál þitt vel. Þá áttu líka auðveldara með að svara spurningum sem lánastofnanirnar kynnu að spyrja.
Ef þú treystir þér ekki til að gera áætlun, leitaðu þá strax hjálpar hjá ráðgjafaþjónustu, áður en allt er komið í óefni. Því fyrr sem þetta er frá, því betra því þá hangir það ekki yfir þér í atvinnuleitinni að þú getir hugsanlega ekki borgað af húsinu og bílnum o.s.frv.
Annað mjög mikilvægt atriði, láttu alla ábyrgðarmenn vita strax að þú sért búinn að missa vinnuna og að þú sért strax farinn að vinna að fjárhagsáætlun. Það er óþarfi að láta þá hafa áhyggjur af stöðunni líka. Ef þeir vilja fylgjast náið með eða koma með ráð, leyfðu þeim það.
Það versta sem maður gerir þegar við blasa fjárhagserfiðleikar er að láta stoltið bera sig ofurliði. Ég veit að það getur verið erfitt að tala við ábyrgðarmennina en það verður mun erfiðara ef lán fara í vanskil. Í raun verður það alltaf erfiðara og erfiðara eftir því sem lengra líður. Svo drífðu í þessu.
Það er erfitt og fúlt að missa vinnuna en það eru engir heimsendir. Hver lífsreynsla mótar mann og gerir mann að því sem maður er. Það jákvæða við alla lífsreynslu er að maður lærir af henni og verður sterkari fyrir vikið.
Ef ég hefði t.d. ekki misst aleiguna fyrir 6 árum þá gæti ég ekki skrifað þessi kreppuráð, þá hefði ég aldrei farið í skóla, þá hefði ég ekki orðið blaðamaður og svo mætti lengi telja.
Eitthvað gott vinnst af allri reynslu :) Það er í það minnsta mín reynsla
gangi þér vel :)
9. nóvember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli