9. nóvember 2008

Kreppuráð #1

Vegna fjölda áskoranna ætla ég að pósta á þessu bloggi kreppuráð mín og svo kannski einhverju öðru sem mér dettur í hug í það og það skiptið.

Hérna kemur fyrsta færsla mín um efnið kóperað af facebook síðunni minni :)

Ég var að spá í að gefa út bók sem væri uppfull af alls konar ráðleggingum sem gætu hentað fólki í kreppunni. Svo fannst mér það frekar hallærislegt, þ.e. að selja bók um efnið þegar í raun þeir sem á henni þyrftu að halda hefðu ekki efni á að kaupa slíka bók!

Þannig að ég ætla bara að setja nokkrar nótur um efnið hér inn, svona fyrir vini mína og aðra sem skiljanlega vita varla hvað snýr upp né niður núna og eiga kannski erfitt með að sjá fram úr hlutunum og einnig fyrir alla þá sem vilja læra af minni reynslu.

Hér kemur svo kreppuráð númer eitt:

Þakkaðu!

Já, það hljómar kannski einkennilega en þegar maður þakkar fyrir allt það sem maður hefur þá verður það sem maður hefur ekki eitthvað svo ómerkilegt.

Þakkaðu upphátt og ef þú trúir á guð þá geturðu þakkað honum en ef ekki þá þakkarðu bara einhverjum öðrum eða bara út í loftið!

Þakkaðu á hverjum degi til að byrja með. Mér finnst best að gera það á kvöldin, inni á baði eða í sturtunni þar sem enginn heyrir til mín (krökkunum og kallinum gæti fundist ég skrýtin). Ég þakka þá fyrir börnin mín, manninn minn, fyrir að hafa þak yfir höfuðið, fyrir brosið sem ég fékk þann daginn eða bara fyrir heilsuna eða fjölskylduna eða köttinn, bílinn, sokkana mína, í raun bara það sem mér finnst þakkavert þann daginn.

Trúið mér að eftir smá tíma þá fer þetta að svínvirka! Maður kemur auga á það sem skiptir máli og á auðveldara með að sætta sig við það sem maður hefur misst. Smám saman nægir manni að þakka þegar maður er niðurdreginn eða bara svona af og til í hverjum mánuði.



Þetta var sumsé kreppuráð mitt nr. 1. Ég veit ekki hve mörg þau verða en sum þeirra snúa að því andlega á meðan önnur snúa að praktískari hlutum eins og hvernig á að spara, hvernig er hægt að halda veislu fyrir lítnn aur og hvernig á að viðhalda ástinni svo fáein dæmi séu nefnd.

Ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið að ég fjalli um eða ef þið hafið einhverjar spurningar sem þið viljið að ég svari um efnið þá endilega sendið mér línu,

bless í bili,

Lára

3 ummæli:

  1. Takk Lára fyrir frábærlega skemmtilegt blogg sem auk þess er bæði stuðningur og áminning fyrir okkur samferðamenn þína í kreppunni.Jákvæðnin er ómetanlegur kostur.
    Megi allt ganga þér í haginn.
    Kær kveðja,
    Esther Sigurðardóttir

    SvaraEyða
  2. Kærar þakkir fyrir Kreppuráðin. Sérstaklega kann ég að meta það fyrsta sem lesið var upp í jólamessu séra Egils Hallgrímssonar í Haukadalskirkju. Þannig fann ég góðu ráðin þín sem. Megir þú halda áfram á sömu braut.

    SvaraEyða
  3. Kærar þakkir fyrir að deila þessu með okkur hinum. Ég held að margt sem þú skrifar ætti að segjast oftar og á fleiri stöðum. Kveðja Anna Heiða Óskarsdóttir

    SvaraEyða