Ég ætla aðeins að fikra mig inn á þetta andlega í þessu kreppuráði, sem er í raun ráð gegn framtaksleysi og áhyggjum. Þetta tvennt sligar marga nú um mundir og sumir eiga erfitt með svefn og öðrum finnst þeir aldrei koma neinu í verk. Í þetta sinn ætla ég að skrifa tvö kreppuráð í einu, þar sem mér finnst þau svolítið samofin
Byrjum á kreppuráði #8
Líklega kannast einverjir við að liggja andvaka langt fram eftir nóttu og velta sér upp úr alls kyns málum. Sérstaklega ef þeir hafa miklar áhyggjur af framtíðinni og hvernig við henni skuli bregðast.
Það er tvennt sem ég hef gert þegar svona liggur á hjá mér. Það fyrra er að ég reyni að einskorða peningaáhyggjur við mánaðarmót. Það geri ég með því að semja um eða greiða allar skuldir sem ég get þá og taka svo ákvörðun um að hugsa ekki meira um það fyrr en næstu mánaðarmót. Þannig takmarka ég tímann sem fer í áhyggjur.
Hitt sem ég geri er að ef ég festist í áhyggjuhugsunum þá reyni ég að tæma hugann með því að hugsa um eitthvað annað. Það geri ég með því að endurtaka í huganum í sífellu eitthvað sem ég mun aldrei hafa áhyggjur af eins og gaffal.
Já, ég veit það hljómar skringilega en með því að endurtaka orðið gaffall ítrekað í huganum hverfa aðrar hugsanir. Áður en langt um líður eru áhyggjurnar horfnar úr huga mér, í það minnsta nógu lengi svo ég geti sofnað. Það er nefnilega afar mikilvægt að sofa ef maður á að halda andlegri heilsu.
Kreppuráð #9 snýr að því hvernig hægt er að berjast gegn framtaksleysi.
Áhyggjur, atvinnuleysi og reiði eiga það til að gera mann þunglyndan og framtakslausan. Ég lenti einu sinni í því að mér fannst ég aldrei gera nóg, ég kom mér ekki í verkefni dagsins og ég álasaði sjálfri mér fyrir leti og framtaksleysi. Eftir því sem ég hugsaði meira um það hversu ómöguleg ég væri þeim mun verra leið mér og minna kom ég verk.
Ég brá því á það ráð að skrifa niður á hverjum degi hvað ég gerði þann daginn. Fyrstu dagana var það ekki mikið, setti kannski í þvottavél, gaf börnunum að borða, setti í uppþvottavél og baðaði krakkana. Þegar ég sá svart á hvítu að ég hafði ekki setið alveg aðgerðarlaus, eins og ímyndaði mér að ég hefði gert, leið mér aðeins betur. Smám saman lengdist í listanum.
Þá tók ég upp á því að setja sjálfri mér verkefni. Til að byrja með aðeins eitt á dag. Verkefnin voru smá til að byrja með, eins og t.d. : hringja í bankann eða fara í búð.
Þegar ég lauk við verkefnið, krossaði ég við það. Þetta ásamt því að skrifa niður á hverjum degi hverju ég hafði áorkað þann daginn hjálpaði mér upp úr þeirri þunglyndislægð sem ég var í
Ég veit ekkert hvort þetta virkar á aðra, en það virkaði í það minnsta hjá mér. Enn þann dag í dag, þegar ég er löt eða eirðarlaus, skrifa ég verkefnalista á miða. Það hjálpar mér að halda einbeitingu og klára þau verkefni sem fyrir mér liggja hverju sinni
Það er í það minnsta mín skoðun að lífið sé of dýrmætt og skemmtilegt til að eyða því í áhyggjur og doða :)
Munið bara hve þið eruð heppin! Mér finnst ég í það minnsta afar heppin kona og ég veit að ef þið hugsið ykkur vel um þá sjáið þið að þið eruð líka afar heppin :) :)
16. nóvember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
frábært að fá svona ráð frá þér,mun örugglega nota þau,gangi þér og þínum allt í haginn þú ert frábær og hugrökk
SvaraEyða