24. nóvember 2008

Kreppuráð #10

Þessi kreppuráð mín hafa fengið mun betri móttökur en ég átti nokkru sinni von á. Þegar ég byrjaði að skrifa þau hélt ég kannski að einhver einn eða jafnvel tveir hefðu áhuga á að lesa þau!

Ég er eiginlega alveg orðlaus yfir því hvað þau hittu mark og þakka fyrir það :) Vonandi hafa þau hjálpað einhverjum þó ekki væri nema við að brosa út í annað :)

Kreppuráð mitt #10 fjallar einmitt svolítið um það. Það er nefnilega alveg nauðsynlegt stundum að gleyma amstri dagsins og skilja áhyggjurnar eftir fyrir utan veggi heimilisins og brosa

Kreppuráð #10 er því:

Láttu eins og fífl!

Já, stundum er gott að láta eins og fífl. Þegar verulega reynir á og heimurinn virðist að hruni kominn þá er nauðsynlegt að reyna að gleyma aðstæðum um stund og leyfa sér að láta eins og fífl. Þá meina ég, leyfa barninu í sér að koma fram. Það hressir andann og fær mann til að hlæja, eða í það minnsta brosa í kampinn :)

Þá er ég ekki endilega að tala um að láta eins og fífl við aðra eða úti á götu (þó það sé nú samt alltaf svoldið gaman) heldur frekar heima við með fjölskyldunni, gantast og gera gys.

Ég skal nefna dæmi:

Fjölskyldan mín heldur oft partý á föstudagskvöldum. Þá færum við öll húsgögnin til í stofunni, búum til dansgólf, kveikjum á tónlist og syngjum og dönsum. Oft klæðum við okkur upp í hallærisleg föt eða syngjum í kústsköft og gaffla nú eða dönsum bjánadansa.

Þá þýðir ekkert að taka sig of hátíðlega. Það verður allt svo miklu skemmtilegra ef maður hefur ekki alltaf áhyggjur af því hvað öðrum finnst. Leyfðu þér að haga þér stundum eins og fífl, krakkarnir elska það, ég get lofað því, þeim finnst foreldrar sem hoppa og skoppa og dansa og syngja í gaffla og kústa alveg einstaklega fyndnir og skemmtilegir :) og makanum finnst það líka fyndið og ef enginn er makinn eða krakkinn, bjóddu þá einhverjum vini eða vinum í náttfatapartý þar sem þið hagið ykkur eins og fífl

Þetta kallar líka fram hlátur og hláturinn lengir jú lífið og léttir lundina.

Manni líður betur á eftir og um stund, þó ekki væri nema um stundarkorn gleymir maður áhyggjum lífsins.

Ef þið treystið ykkur til getið þið svo tekið þetta skrefinu lengra og fíflast og sungið í búðinni eða á læknabiðstofunni eða bara sleppt ykkur í bílnum, hækkað í uppáhaldslaginu í botn og sungið af öllum lífs og sálarkröftum :)

Að lokum langar mig að ítreka að ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið að ég tali um eða svari þá megið þið alveg spyrja, alveg sama hversu fáránleg ykkur kann að þykja spurningin.

Gangi ykkur allt best í haginn og góða skemmtun!

kv, Lára

16. nóvember 2008

Kreppuráð #8 og #9

Ég ætla aðeins að fikra mig inn á þetta andlega í þessu kreppuráði, sem er í raun ráð gegn framtaksleysi og áhyggjum. Þetta tvennt sligar marga nú um mundir og sumir eiga erfitt með svefn og öðrum finnst þeir aldrei koma neinu í verk. Í þetta sinn ætla ég að skrifa tvö kreppuráð í einu, þar sem mér finnst þau svolítið samofin

Byrjum á kreppuráði #8

Líklega kannast einverjir við að liggja andvaka langt fram eftir nóttu og velta sér upp úr alls kyns málum. Sérstaklega ef þeir hafa miklar áhyggjur af framtíðinni og hvernig við henni skuli bregðast.

Það er tvennt sem ég hef gert þegar svona liggur á hjá mér. Það fyrra er að ég reyni að einskorða peningaáhyggjur við mánaðarmót. Það geri ég með því að semja um eða greiða allar skuldir sem ég get þá og taka svo ákvörðun um að hugsa ekki meira um það fyrr en næstu mánaðarmót. Þannig takmarka ég tímann sem fer í áhyggjur.

Hitt sem ég geri er að ef ég festist í áhyggjuhugsunum þá reyni ég að tæma hugann með því að hugsa um eitthvað annað. Það geri ég með því að endurtaka í huganum í sífellu eitthvað sem ég mun aldrei hafa áhyggjur af eins og gaffal.

Já, ég veit það hljómar skringilega en með því að endurtaka orðið gaffall ítrekað í huganum hverfa aðrar hugsanir. Áður en langt um líður eru áhyggjurnar horfnar úr huga mér, í það minnsta nógu lengi svo ég geti sofnað. Það er nefnilega afar mikilvægt að sofa ef maður á að halda andlegri heilsu.

Kreppuráð #9 snýr að því hvernig hægt er að berjast gegn framtaksleysi.

Áhyggjur, atvinnuleysi og reiði eiga það til að gera mann þunglyndan og framtakslausan. Ég lenti einu sinni í því að mér fannst ég aldrei gera nóg, ég kom mér ekki í verkefni dagsins og ég álasaði sjálfri mér fyrir leti og framtaksleysi. Eftir því sem ég hugsaði meira um það hversu ómöguleg ég væri þeim mun verra leið mér og minna kom ég verk.

Ég brá því á það ráð að skrifa niður á hverjum degi hvað ég gerði þann daginn. Fyrstu dagana var það ekki mikið, setti kannski í þvottavél, gaf börnunum að borða, setti í uppþvottavél og baðaði krakkana. Þegar ég sá svart á hvítu að ég hafði ekki setið alveg aðgerðarlaus, eins og ímyndaði mér að ég hefði gert, leið mér aðeins betur. Smám saman lengdist í listanum.

Þá tók ég upp á því að setja sjálfri mér verkefni. Til að byrja með aðeins eitt á dag. Verkefnin voru smá til að byrja með, eins og t.d. : hringja í bankann eða fara í búð.

Þegar ég lauk við verkefnið, krossaði ég við það. Þetta ásamt því að skrifa niður á hverjum degi hverju ég hafði áorkað þann daginn hjálpaði mér upp úr þeirri þunglyndislægð sem ég var í

Ég veit ekkert hvort þetta virkar á aðra, en það virkaði í það minnsta hjá mér. Enn þann dag í dag, þegar ég er löt eða eirðarlaus, skrifa ég verkefnalista á miða. Það hjálpar mér að halda einbeitingu og klára þau verkefni sem fyrir mér liggja hverju sinni

Það er í það minnsta mín skoðun að lífið sé of dýrmætt og skemmtilegt til að eyða því í áhyggjur og doða :)

Munið bara hve þið eruð heppin! Mér finnst ég í það minnsta afar heppin kona og ég veit að ef þið hugsið ykkur vel um þá sjáið þið að þið eruð líka afar heppin :) :)

11. nóvember 2008

Kreppuráð #7

Jæja, þá er komið að sjöunda kreppuráðinu. Ég biðst forláts á hve lengi ég hef beðið með að skrifa það en það hefur bara verið eitthvað svo mikið að gera hjá mér. Furðulegt hvernig hlutirnir æxlast stundum

Hvað um það,

Eitt það erfiðasta við að eiga lítinn pening er þegar eitthvað kemur upp á sem ekki var gert ráð fyrir í heimilisbókhaldinu. Það getur verið svo margt, eins og til dæmis að bíllinn bilar, skólaferðalag, tannlæknaferð, lækniskostnaður og fleira og fleira.

Til að mæta slíkum kostnaði og til að eiga fyrir sumarfríi, afmælum, flottu kápunni eða einhverju öðru er best að leggja til hliðar

Kreppuráð #7

Ég þekki hins vegar vel að það getur verið afar erfitt. Ég í það minnsta er afar gjörn á að eyða öllu sem ég þéna :)

Þess vegna geri ég mér það erfitt fyrir að sækja peningana sem ég legg til hliðar. Svona fer maður að:

Um hver mánaðarmót lætur þú draga 5000 krónur af launareikningnum (eða 1000 krónur eða í raun hvaða upphæð sem hentar þér). Best er að bankinn geri það strax á fyrsta degi, áður en þú ferð sjálf/ur að krukka í honum.

Peningana leggum maður svo inn á bók sem er ekki í þinum viðskiptabanka heldur í einhverjum öðrum banka sem þú hefur engin önnur viðskipti við. Ekki biðja um aðgagn að einkabanka þess banka og ekki búa til fjögurra stafa lykilorð þannig að þú getir millifært í gegnum síma

Þá er eina leiðin til að nálgast þessa peninga sú að þú þarft að fara í bankann og ná í hann! Langbest er ef bankinn er ekki með útibú nálægt heimili þínu eða vinnu

Ég læt t.d. leggja barnabæturnar mínar inn á svona reikning. Þannig safnast þær þar saman og áður en maður veit af á maður fyrir alls konar aukafjáútlátum.

Ef ég þarf aurinn þá næ ég í hann, en ég hugsa mig líka tvisvar um áður en ég geri það

Nú á ég t.d. einhverja þúsund kalla á bókinni minni sem ég get annað hvort notað um jólin (ég ætla samt að reyna að komast hjá því) eða þá ég get notað þá í sumarfríið mitt á næsta ári nú eða þegar ég komin á strípaðar atvinnuleysisbætur þá er gott að eiga eitthvað smá aukreitis

Ég veit ekki með ykkur en ég er í það minnsta þannig gerð að ég þarf að beita mig miklum aga til að eyða ekki um efni fram. Um það snúast þessi ráð mín eiginlega. Ég er líka þannig gerð að ef ég er búin að ákveða eitthvað þá stend ég oftast við það og því hjálpar mér að ákveða alla eyðslu fyrirfram og að gera mér erfitt fyrir að eyða um efni fram

Ég er enginn sérfræðingur í þessum málum svo sem og hef eins og svo margir skuldsett mig og eytt í vitleysu. Mér finnst líka í lagi að eyða peningum í óþarfa ef ég á þá til

Nú hins vegar þegar harðnar í dalnum þá endurskipulegg ég mig. Ég byrjuð af krafti aftur, bý til matseðil, skipulegg fram í tímann, spara, legg til hliðar og allan pakkann

Það er ekkert leiðinlegra en eyða peningum, það er meira að segja bara svoldið skemmtilegt og krefjandi verkefni :)

Munum svo bara að þetta gegnur yfir eins og allt annað og áður en þið vitið af þá verður lífið á Íslandi orðið eins og það var árið 2007 - allir farnir að fljúga einkaþotum og spreða í lúxusbíla - Treystið mér :)

9. nóvember 2008

Kreppuráð #6

Nú þegar jólin nálgast eru einhverjir farnir að huga að því hvernig þeir komi til með að hafa efni á þeim. Aðrir hafa kannski ekkert velt því fyrir sér.

Jólin eru dýr, það vita allir en þau þurfa ekki að gera fólk nánast gjaldþrota. Það eru ýmsar leiðir til að spara um jólin.

Kreppuráð #6


1. desember tek ég af matarpening mánaðarins og legg til hliðar fyrir jólunum. Ég ákveð strax þá hve miklu ég ætla að eyða í hverja jólagjöf. Síðan ákveð ég jólamatseðilinn og reikna út hvað hann kostar. Samanlagða upphæðina fyrir gjöfum, tré, skrauti og mat legg ég svo til hliðar. Þetta þýðir að vísu að maður þarf að herða sultarólina enn meira 22 fyrstu dagana í desember en það er þess virði, ef jólin verða ánægjuleg.

Ég vil frekar leggja það á mig en lenda aftur í því að eiga ekki fyrir jólamat og að lokað sé fyrir rafmagnið hjá mér á Þorláksmessu. Þurfa svo að redda sér fyrir horn með láni frá ættingjum.

Sumir geta kannski lagt eitthvað til hliðar strax og munar þá um allt. Ég er til dæmis búin að leggja aðeins fyrir núna sem ég tók af barnabótunum.

En jæja, nóg um það. Þegar ég er búin að ákveða hversu miklu ég ætla að eyða í gjafir og annað tengt jólunum fer ég að huga að því að kaupa gjafirnar. Best er að kaupa þær snemma í desember þar sem þá er jólasamkeppnin í hámarki. Ég veit frá þeim dögum sem ég vann í verslunargeiranum að allar vörur byrja að hækka um miðjan desember og eftir því sem nær dregur jólum þeim mun dýrari verða þær. Verslunarmenn vita sem er að þegar fólk er að flýta sér að kaupa þá hugsar það minna um hvað hlutirnir kosta.

Sama á við um matvöru sem geymist lengi. Kaupið kryddið, sósur, smjörlíki, gos, konfekt og annað sem má geyma snemma í desember. Þessar vörur hækka nefnilega líka þegar nær dregur jólum. Ég veit að þetta tekur allt pláss en flestir eru hvort sem er að borga himinháar upphæðir fyrir fermetrann, ekki satt?

Jólamatinn sjálfan kaupið þið svo þegar nær dregur, þ.e. mjólkurvörur, brauð og aðra ferskvöru sem ekki má frysta eða geyma.

Margir leggja mikinn metnað í að gjafirnar séu fallega innpakkaðar. Ég er ein af þeim. Hins vegar er jólapappír afar dýr pappír sem flestir henda á aðfangadagskvöld. Í stað þess að kaupa jólapappír má nota ýmislegt annað eins og t.d. dagblöð. Þá byrjar maður að safna saman fallegum dagblöðum þar sem mikið er af myndum, í byrjun desember. Eins má nýta ónýt föt sem gjafaumbúðir, klippa þau niður og binda utan um með fallegri slaufu, nú svo má nota skókassa, aðra kassa, umslög, sokka, vettlinga sem eru þá í leiðinni hluti af gjöfinni og margt, margt fleira. Horfðu bara í kringum þig á heimilinu og leyfðu ímyndunaraflinu að njóta sín.

Í stað þess að kaupa pakkaskraut má þurrka appelsínur, mandarínur, banana, lime og aðra ávexti í ofninum hjá sér. Virkilega fallegt skraut.

Sleppið límbandinu ef þið notið bönd. Þá er límbandið óþarft. Það má líka pakka inn í maskínupappír eða kraftpappír, sem er mikið ódýrari en jólapappírinn.

Endilega prófið ykkur áfram.

Haldið ykkur við planið og eyðið aðeins því sem þið ætluðuð ykkur. Eins og ég hef áður sagt þá skiptir mestu að nota peninga, alltaf, en ekki kort. Ef þið eruð föst í kreditkortinu, takið þá út úr hraðbanka og farið með peninga í búðina.

Jólatré má fá ódýrt á Þorláksmessu. Þau eru ekki eins falleg en það er allt í lagi. Mér finnst alltaf einhver rómatík falin í ljótu jólatré.

Það þarf ekki að kaupa ný föt á alla fyrir aðfangadagskvöld. Það er til dæmis hægt að panta frá ömmu og afa eða einhverjum að börnin fái föt í jólagjöf. Þá er hægt að nota þau á jóladag og á gamlárskvöld. Ég er hins vegar afar hjátrúarfull og vil því að börnin mín fái nýja flík svo þau fari ekki í jólaköttinn, en það þarf bara að vera einhver ein flík og svo setur maður þau í eitthvað fallegt við.

Það hefur hentað mér best að kaupa allar jólagjafirnar í sömu verslunarferðinni. Því oftar sem maður fer í búð eru nefnilega meiri líkur á að maður eyði of miklu. Við setjumst þá saman niður, ég og kallinn og gerum jólagjafalista, setjum upphæð við hvert nafn og verslum samkvæmt því. Við ákveðum líka hversu miklu ef einhverju við ætlum að eyða í gjafir handa hvort öðru. Ef við ætlum engu að eyða höfum við búið til gjafirnar handa hvort örðu, sem er afar rómantískt og skemmtilegt. Bestu gjafirnar sem ég hef fengið eru heimatilbúnar.

Það má líka búa til aðrar gjafir, sérstaklega þær sem ætlaðar eru fullorðnum. Sultur, heimalagað konfekt, kæfur, smákökubox og margt, margt fleira er hægt að búa til fyrir lítinn aur.

Þá er líka best að kaupa skódótið snemma og allt í einu. Bendi á Tiger og aðrar sambærilegar búðir í því samhengi.

Jólin eru yndislegur tími. Tími fjölskyldunnar, ástarinnar og kærleikans. Um það eru flestir sammála og aðeins örfáir verða reiðir vegna jólagjafar sem ekki var nógu góð. Langflestir eru ánægðir með hugsunina að baki gjöfinni. Gjöf sem natni er lögð við og er vel hugsuð út frá einstaklingnum sem á að fá hana er mun dýrmætari en gjöf sem kostar fullt af peningum.

Það er engin ástæða til að láta peninga stjórna okkur um jólin. Ég veit vel að það getur verið erfitt þegar enginn er aurinn en hef lært að það er hægt að komast af með lítið ef maður skipuleggur sig vel og er agaður fram að jólum. Þá gleymist dagsins amstur og áhyggjur af peningum þegar sest er til borðs á aðfangadagskvöld.

Vona að þið getið nýtt ykkur einhver þessara ráða minna og minni á að ef það er eitthvað sem þið viljið að ég skrifa um sérstaklega eða viljið spyrja mig þá bara senda mér línu :)

Góða stundir

Kreppuráð #5

Það er eiginega við hæfi að þetta kreppuráð fjalli um atvinnumissi. Þar sem ég er svo heppin að hafa áður gengið í gegnum slíkt þá veit ég núna hvað ég á ekki að gera og hvernig ég vil takast á við það í þetta sinn.

Kreppuráð #5 Vertu viðbúinn

Já, það er afar mikilvægt. Þegar maður missir vinnuna þá verður maður fyrst sár og reiður og á það til að velta því fyrir sér lon og don hvað maður gerði rangt og hvers vegna maður sjálfur var rekinn en ekki einhver annar. Það er fullkomlega eðlilegt. Það er líka eðlilegt að syrgja vinnuna og félaga en maður verður að vera afar meðvitaður um það að láta atvinnumissi ekki buga sig.

Þá hef ég gripið til þakklætisins sem ég minntist á í fyrra kreppuráði.

Þegar ég hins vegar tala um að vera viðbúinn þá á ég við þetta: Flestir eru með uppsagnarfrest. Notaðu hann vel. Reyndu að vera bjartsýnn á að þú fáir vinnu fljótlega en ekki taka því sem gefnu. Best er að átta sig á því strax að það gæti gerst að maður fái enga vinnu og þurfi því að lifa á atvinnuleysisbótum.

Bæturnar eru um 130.000 krónur á mánuði auk ca. 5000 króna fyrir hvert barn undir 18 ára. Það segir sig því sjálft fyrir flest okkar að það dugar engan veginn. Því verður maður að nota uppsagnarfrestinn til að vera viðbúinn því sem koma skal.

Sestu niður (með makanum ef þú átt slíkan) og farðu yfir þá reikninga sem þarf að borga. Farðu vel yfir hvaða skuldir er hægt að greiða niður á uppsagnartímabilinu, hvaða skuldir er hægt að greiða af eins og venjulega og hvaða skuldir er hægt að reyna að semja um. Ef þú átt maka þá skiptir gríðarlega miklu máli að hann taki þátt í öllu ferlinu ef vel á að fara.

Gerðu plan, áætlun í fjármálum heimilisins og helst eins fagmannlega og er mögulegt. Síðan ferðu með áætlunina með þér til lánastofnana sem þú ætlar að reyna að semja við.

Það eykur líkurnar á að samið verði við þig vegna þess að þá er greinilegt að þú veist um hvað þú ert að tala og hefur ígrundað mál þitt vel. Þá áttu líka auðveldara með að svara spurningum sem lánastofnanirnar kynnu að spyrja.

Ef þú treystir þér ekki til að gera áætlun, leitaðu þá strax hjálpar hjá ráðgjafaþjónustu, áður en allt er komið í óefni. Því fyrr sem þetta er frá, því betra því þá hangir það ekki yfir þér í atvinnuleitinni að þú getir hugsanlega ekki borgað af húsinu og bílnum o.s.frv.

Annað mjög mikilvægt atriði, láttu alla ábyrgðarmenn vita strax að þú sért búinn að missa vinnuna og að þú sért strax farinn að vinna að fjárhagsáætlun. Það er óþarfi að láta þá hafa áhyggjur af stöðunni líka. Ef þeir vilja fylgjast náið með eða koma með ráð, leyfðu þeim það.

Það versta sem maður gerir þegar við blasa fjárhagserfiðleikar er að láta stoltið bera sig ofurliði. Ég veit að það getur verið erfitt að tala við ábyrgðarmennina en það verður mun erfiðara ef lán fara í vanskil. Í raun verður það alltaf erfiðara og erfiðara eftir því sem lengra líður. Svo drífðu í þessu.


Það er erfitt og fúlt að missa vinnuna en það eru engir heimsendir. Hver lífsreynsla mótar mann og gerir mann að því sem maður er. Það jákvæða við alla lífsreynslu er að maður lærir af henni og verður sterkari fyrir vikið.

Ef ég hefði t.d. ekki misst aleiguna fyrir 6 árum þá gæti ég ekki skrifað þessi kreppuráð, þá hefði ég aldrei farið í skóla, þá hefði ég ekki orðið blaðamaður og svo mætti lengi telja.


Eitthvað gott vinnst af allri reynslu :) Það er í það minnsta mín reynsla

gangi þér vel :)

Kreppuráð #4

Þetta kreppuráð kemur eiginlega í beinu framhaldi af kreppuráði #3. Þá var ég tala um hvernig væri hægt að spara í matarinnkaupum, með því að skipuleggja sig áður en farið er í búðina en nú ætla ég að tala aðeins um hvað berist að varast þegar í búðina er komið.

Kreppuráð #4 er því:

Vertu meðvitaður!

Flestar verlsanir reyna hvað þær geta til að ná sem mestri framlegð af hverri vöru í búðinni. Ekki er endilega sjálfgefið að tilboðsvörur séu þær ódýrustu eða að stærri pakkningar eða magninnkaup svokölluð séu ódýrust.

Þegar maður verslar í matinn er því mjög gott að skoða hvað hlutirnir kosta. Verslunareigendur stilla oft upp vörum á tilboð sem þeir eiga mikið af eða sem heildsalar þeirra eiga mikið af. Þetta þekki ég frá því ég var sjálf í því að verðleggja vörur, kaupa inn og setja á tilboð fyrir verslun hér í bæ.

Þannig er mjög líklegt að tilboðsvöru sé stillt upp í stórum stæðum, á gangvegi verslunarinnar, þar sem mestar líkur eru á að kaupandinn grípi þær með sér og kaupi. Mjög líklegt er að til sé sambærileg vara í hillu sem er ódýrari.

Sem dæmi má nefna að um daginn var klósettpappír á tilboði í Bónus. Framarlega í búðinni var stærðarinnar stæða af klósettpappírnum en í neðstu hillu inní búðinni sjálfri var til klósettpappír sem var um 100 kalli ódýrari. Að sjálfsögðu getur verið að tilboðsskeinirinn hafi verið betri, en þegar maður er að spara þá hugsar maður ekki um það hversu fínn pappírinn er sem maður ætlar að sturta niður í klósettið.

Magninnkaup og stórar pakkningar tryggja heldur ekki lægra verð. Þannig fór ég í Bónus um daginn og keypti Cheerios. Til voru tvær stærðir af morgunkorninu. Þegar ég skoðaði verð á hver 100g kom á daginn að minni pakkinn var ódýrari, sumsé kílóverðið af Cheerios í honum var ódýrara.

Annað dæmi sem ég get nefnt var þegar kassi af kókómjólk var á tilboði í einni búð. Búið var að stilla upp kókómjólkurkössum í myndalega stæðu og setja skilti á sem stóð TILBOÐ.

Þegar ég deildi í tilboðsverðið með fjölda ferna í kassanum kom í ljós að fernan kostaði 3 krónum meira ef keypti heilan kassa á tilboði heldur en stykkið kostaði.

Ef þið fylgist vel með í búðinni, leggið saman og spáið og spekúlerið þá vitið þið líka um leið og reynt er að svindla á ykkur á kassa.

Ég man eftir því að einu sinni átti ég 1260 krónur og fór út í búð að kaupa í matinn. Ég keypti 6 hluti í búðinni og reiknaði út að það myndi kosta mig 1259 krónur. Ég hafði því ekki efni á að kaupa poka.
Þegar ég kom á kassann rukkaði afgreiðslumaðurinn mig hins vegar um 1287 krónur. Ég sagði það ekki geta staðist og fékk að kíkja á verðin á strimlinum. Kom þá í ljós að allar vörurnar sem ég var að kaupa voru dýrari á kassa heldur en hillumiðinn sagði til um. ALLAR!
Hvað skyldi búðin græða mikið á því að allt kosti, þó ekki væri nema einni krónu meira en stendur á hillu? Það er fljótt að telja held ég.

Svona gæti ég lengi talið upp. Því ráðlegg ég ykkur að vera vakandi þegar þið eruð í búðinni. Þetta þrennt, þ.e.a.s. vera með miða, nota aðeins peninga og að vera meðvitaður í búðinni lækkar matarreikninginn um þúsundir króna á mánuði.

Svo er þetta líka mjög fræðandi og skemmtilegt. Það er gaman að vita hvað hlutirnir kosta og verslunarferðin verður mun skemmtilegri þegar maður hefur nóg að hugsa, reikna, spá og spekúlera í stað þess hlaupa bara um með kerru og henda einhverju ofan í.

Síðast en ekki síst, þá heldur það verðbólgunni í skefjum, og það viljum við öll, ekki satt?

:)

Kreppuráð #3

Jæja, nú er komið að því að skrifa praktískt kreppuráð.

Ég hef verið svolítið á andlega sviðinu því mér fannst að á því sviði væri best að byrja. Nú er hins vegar kominn tími á að gefa sparnaðarráð.

Það er svona:

Eyddu minna!

Það versta sem maður lendir í eru vanskil. Þau eru afar dýr og maður ætti í lengstu lög að forðast þau. Það er best að gera með því að borga alla reikninga 1. dag mánaðar eða þegar maður fær útborgað. Afganginn notar maður svo í mat.

Ég veit að sumir eiga þá afskaplega lítið eftir í mat og sjá þá jafnvel ekki fram úr því að geta framfleytt sér og sínum út mánuðinn. Það þekki ég vel. En ekki láta freistast til að sleppa borga reikningana nema í algerri, algerri neyð. Það er hægt að komast af með lítið!

Það sem hentaði mér vel í slíkum aðstæðum var þetta:

Eftir að hafa borgað alla reikninga settist ég niður og skoðaði hvað ég ætti afgangs. Síðan dró ég frá það sem ég ætlaði að nota í bensín (reiknaði út hvað ég þyrfti að keyra og hve miklu bensíni bíllinn myndi eyða og fékk þá út einhverja upphæð).

Þegar það var komið, tók ég þá upphæð frá afgangsupphæðinni. Þá var einhver x upphæð eftir sem duga þurfti fyrir mat og hreinlætisvörum.

Ég deildi síðan í þá tölu með dagafjölda mánaðarins. Þannig fann ég út hve mikið mætti fara í mat á dag. Síðan margfaldaði ég þá tölu með 7, til að sjá hve mikið færi í mat á viku. Það virkaði að mér fannst nefnilega best að kaupa vikubirgðir í einu.

Þegar þarna var komið við sögu, settist fjölskyldan saman niður til að búa til matseðil mánaðarins :) Allir fengu að koma með uppástungur og þetta var bara hin skemmtilegasta fjölskylduskemmtun :)

Á matseðlinum stóð hvað var í morgunmat, hádegissnarl, kaffi og kvöldmat, hvern einasta dag mánaðarins. Leit svoldið út eins og stundaskrá.

Þegar matseðillinn var tilbúinn skrifaði ég upp innkaupalista fyrir vikuna og fór með nákvæmlega þá upphæð sem eyða mátti á einni viku út í búð og keypti inn, aðeins það sem var á listanum og ekkert annað. Ég lagði saman í huganum hvað það sem ég var að kaupa kostaði en það er líka hægt að nota reiknivél.

Í hverri viku bjó ég svo til nýjan innkaupalista samkvæmt matseðli og keypti inn. Alltaf með peninga, engin kort eða neitt slikt þar sem þau deyfa dómgreindina. Þegar maður notar kort hættir manni nefnilega til að eyða um efni fram.

Þegar ég var sem blönkust átti ég kannski 40-50 þúsund á mánuði í afgang fyrir mat. Það er ekki mikið fyrir 7 manna fjölskyldu en það hafðist.

Krökkunum fannst þetta líka bráðskemmtilegt. Þeim fannst gott að hafa reglu á hlutunum og geta alltaf gengið að ísskápnum og skoðað matseðilinn. Þegar þau komu heim úr skólanum og ætluðu að fá sér kaffisnarl þurftu þau ekki heldur að hringja í mig eða pabba sinn til að spyrja hvað þau mættu fá. Það stóð á matseðlinum.

Þeim fannst líka gaman að búa matseðilinn til. Þegar við fórum að hafa meira á milli handanna hætti ég þessu en nú er ég að taka upp þessa háttu aftur, krökkunum til mikillar gleði. Þau hafa nefnilega kvartað sáran yfir því að marseðillinn skuli vera horfinn af ísskápnum :)

Kreppuráð #2

Jæja,

er loks sest niður til að setja á blað kreppuráð #2. Síðast talaði ég um hversu gott sé að þakka. Kreppuráðið mitt núna er:

Mundu!

Já, það hljómar kannski einkennilega en þetta er það sem ég á við:

Þegar skóinn kreppir að í fjármálum heimilanna þá koma oft upp deilur milli hjóna. Fjárhagserfiðleikar eru algengari orsök skilnaða en framhjáhald. Því er mjög mikilvægt að mínu mati að muna.

Munið eftir hvoru öðru. Munið hvers vegna þið fóruð að vera saman til að byrja með og munið hvað hefur haldið ykkur saman.

Munið eftir að vera góð við hvort annað og munið eftir að gleðja. Það er alveg hægt að gefa þó peningarnir séu af skornum skammti.

Einu sinni langaði mig í gítar í jólagjöf. Maðurinn minn tók sig til og bjó til gítar úr mandarínukassa og spítu og setti snæri sem strengi. Auðvitað var ekki hægt að spila á gítarinn en það skipti ekki máli, það var hugsunin á bak við gítarinn sem skipti öllu.

Ef illa gengur í sambandinu og þér finnst allt í einu eins og allt sé búið spil þá er mjög gott ráð að sækja myndaalbúmið og skoða gamlar myndir. Myndir af ykkur þegar þið voruð hamingjusöm. Þegar þú hefur fundið aftur ástæðuna fyrir sambandinu, biddu þá maka þinn um að setjast við hlið þér og rifja upp gamla tíma.

Munið líka að eyða tíma saman. Það þarf ekki að kosta peninga. Nægir að dimma ljósin og kveikja á kerti, taka fram spilastokk og spila á spil. Nú, svo er líka hægt að fara í stuttan göngutúr og leiðast hönd í hönd.

Ef erfiðlega gengur að gefa sambandinu tíma þá takið hann frá í dagbókinni, svona eins og um mikilvægan fund væri að ræða.

Kreppuráð #1

Vegna fjölda áskoranna ætla ég að pósta á þessu bloggi kreppuráð mín og svo kannski einhverju öðru sem mér dettur í hug í það og það skiptið.

Hérna kemur fyrsta færsla mín um efnið kóperað af facebook síðunni minni :)

Ég var að spá í að gefa út bók sem væri uppfull af alls konar ráðleggingum sem gætu hentað fólki í kreppunni. Svo fannst mér það frekar hallærislegt, þ.e. að selja bók um efnið þegar í raun þeir sem á henni þyrftu að halda hefðu ekki efni á að kaupa slíka bók!

Þannig að ég ætla bara að setja nokkrar nótur um efnið hér inn, svona fyrir vini mína og aðra sem skiljanlega vita varla hvað snýr upp né niður núna og eiga kannski erfitt með að sjá fram úr hlutunum og einnig fyrir alla þá sem vilja læra af minni reynslu.

Hér kemur svo kreppuráð númer eitt:

Þakkaðu!

Já, það hljómar kannski einkennilega en þegar maður þakkar fyrir allt það sem maður hefur þá verður það sem maður hefur ekki eitthvað svo ómerkilegt.

Þakkaðu upphátt og ef þú trúir á guð þá geturðu þakkað honum en ef ekki þá þakkarðu bara einhverjum öðrum eða bara út í loftið!

Þakkaðu á hverjum degi til að byrja með. Mér finnst best að gera það á kvöldin, inni á baði eða í sturtunni þar sem enginn heyrir til mín (krökkunum og kallinum gæti fundist ég skrýtin). Ég þakka þá fyrir börnin mín, manninn minn, fyrir að hafa þak yfir höfuðið, fyrir brosið sem ég fékk þann daginn eða bara fyrir heilsuna eða fjölskylduna eða köttinn, bílinn, sokkana mína, í raun bara það sem mér finnst þakkavert þann daginn.

Trúið mér að eftir smá tíma þá fer þetta að svínvirka! Maður kemur auga á það sem skiptir máli og á auðveldara með að sætta sig við það sem maður hefur misst. Smám saman nægir manni að þakka þegar maður er niðurdreginn eða bara svona af og til í hverjum mánuði.



Þetta var sumsé kreppuráð mitt nr. 1. Ég veit ekki hve mörg þau verða en sum þeirra snúa að því andlega á meðan önnur snúa að praktískari hlutum eins og hvernig á að spara, hvernig er hægt að halda veislu fyrir lítnn aur og hvernig á að viðhalda ástinni svo fáein dæmi séu nefnd.

Ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið að ég fjalli um eða ef þið hafið einhverjar spurningar sem þið viljið að ég svari um efnið þá endilega sendið mér línu,

bless í bili,

Lára