Nú þegar jólin nálgast eru einhverjir farnir að huga að því hvernig þeir komi til með að hafa efni á þeim. Aðrir hafa kannski ekkert velt því fyrir sér.
Jólin eru dýr, það vita allir en þau þurfa ekki að gera fólk nánast gjaldþrota. Það eru ýmsar leiðir til að spara um jólin.
Kreppuráð #6
1. desember tek ég af matarpening mánaðarins og legg til hliðar fyrir jólunum. Ég ákveð strax þá hve miklu ég ætla að eyða í hverja jólagjöf. Síðan ákveð ég jólamatseðilinn og reikna út hvað hann kostar. Samanlagða upphæðina fyrir gjöfum, tré, skrauti og mat legg ég svo til hliðar. Þetta þýðir að vísu að maður þarf að herða sultarólina enn meira 22 fyrstu dagana í desember en það er þess virði, ef jólin verða ánægjuleg.
Ég vil frekar leggja það á mig en lenda aftur í því að eiga ekki fyrir jólamat og að lokað sé fyrir rafmagnið hjá mér á Þorláksmessu. Þurfa svo að redda sér fyrir horn með láni frá ættingjum.
Sumir geta kannski lagt eitthvað til hliðar strax og munar þá um allt. Ég er til dæmis búin að leggja aðeins fyrir núna sem ég tók af barnabótunum.
En jæja, nóg um það. Þegar ég er búin að ákveða hversu miklu ég ætla að eyða í gjafir og annað tengt jólunum fer ég að huga að því að kaupa gjafirnar. Best er að kaupa þær snemma í desember þar sem þá er jólasamkeppnin í hámarki. Ég veit frá þeim dögum sem ég vann í verslunargeiranum að allar vörur byrja að hækka um miðjan desember og eftir því sem nær dregur jólum þeim mun dýrari verða þær. Verslunarmenn vita sem er að þegar fólk er að flýta sér að kaupa þá hugsar það minna um hvað hlutirnir kosta.
Sama á við um matvöru sem geymist lengi. Kaupið kryddið, sósur, smjörlíki, gos, konfekt og annað sem má geyma snemma í desember. Þessar vörur hækka nefnilega líka þegar nær dregur jólum. Ég veit að þetta tekur allt pláss en flestir eru hvort sem er að borga himinháar upphæðir fyrir fermetrann, ekki satt?
Jólamatinn sjálfan kaupið þið svo þegar nær dregur, þ.e. mjólkurvörur, brauð og aðra ferskvöru sem ekki má frysta eða geyma.
Margir leggja mikinn metnað í að gjafirnar séu fallega innpakkaðar. Ég er ein af þeim. Hins vegar er jólapappír afar dýr pappír sem flestir henda á aðfangadagskvöld. Í stað þess að kaupa jólapappír má nota ýmislegt annað eins og t.d. dagblöð. Þá byrjar maður að safna saman fallegum dagblöðum þar sem mikið er af myndum, í byrjun desember. Eins má nýta ónýt föt sem gjafaumbúðir, klippa þau niður og binda utan um með fallegri slaufu, nú svo má nota skókassa, aðra kassa, umslög, sokka, vettlinga sem eru þá í leiðinni hluti af gjöfinni og margt, margt fleira. Horfðu bara í kringum þig á heimilinu og leyfðu ímyndunaraflinu að njóta sín.
Í stað þess að kaupa pakkaskraut má þurrka appelsínur, mandarínur, banana, lime og aðra ávexti í ofninum hjá sér. Virkilega fallegt skraut.
Sleppið límbandinu ef þið notið bönd. Þá er límbandið óþarft. Það má líka pakka inn í maskínupappír eða kraftpappír, sem er mikið ódýrari en jólapappírinn.
Endilega prófið ykkur áfram.
Haldið ykkur við planið og eyðið aðeins því sem þið ætluðuð ykkur. Eins og ég hef áður sagt þá skiptir mestu að nota peninga, alltaf, en ekki kort. Ef þið eruð föst í kreditkortinu, takið þá út úr hraðbanka og farið með peninga í búðina.
Jólatré má fá ódýrt á Þorláksmessu. Þau eru ekki eins falleg en það er allt í lagi. Mér finnst alltaf einhver rómatík falin í ljótu jólatré.
Það þarf ekki að kaupa ný föt á alla fyrir aðfangadagskvöld. Það er til dæmis hægt að panta frá ömmu og afa eða einhverjum að börnin fái föt í jólagjöf. Þá er hægt að nota þau á jóladag og á gamlárskvöld. Ég er hins vegar afar hjátrúarfull og vil því að börnin mín fái nýja flík svo þau fari ekki í jólaköttinn, en það þarf bara að vera einhver ein flík og svo setur maður þau í eitthvað fallegt við.
Það hefur hentað mér best að kaupa allar jólagjafirnar í sömu verslunarferðinni. Því oftar sem maður fer í búð eru nefnilega meiri líkur á að maður eyði of miklu. Við setjumst þá saman niður, ég og kallinn og gerum jólagjafalista, setjum upphæð við hvert nafn og verslum samkvæmt því. Við ákveðum líka hversu miklu ef einhverju við ætlum að eyða í gjafir handa hvort öðru. Ef við ætlum engu að eyða höfum við búið til gjafirnar handa hvort örðu, sem er afar rómantískt og skemmtilegt. Bestu gjafirnar sem ég hef fengið eru heimatilbúnar.
Það má líka búa til aðrar gjafir, sérstaklega þær sem ætlaðar eru fullorðnum. Sultur, heimalagað konfekt, kæfur, smákökubox og margt, margt fleira er hægt að búa til fyrir lítinn aur.
Þá er líka best að kaupa skódótið snemma og allt í einu. Bendi á Tiger og aðrar sambærilegar búðir í því samhengi.
Jólin eru yndislegur tími. Tími fjölskyldunnar, ástarinnar og kærleikans. Um það eru flestir sammála og aðeins örfáir verða reiðir vegna jólagjafar sem ekki var nógu góð. Langflestir eru ánægðir með hugsunina að baki gjöfinni. Gjöf sem natni er lögð við og er vel hugsuð út frá einstaklingnum sem á að fá hana er mun dýrmætari en gjöf sem kostar fullt af peningum.
Það er engin ástæða til að láta peninga stjórna okkur um jólin. Ég veit vel að það getur verið erfitt þegar enginn er aurinn en hef lært að það er hægt að komast af með lítið ef maður skipuleggur sig vel og er agaður fram að jólum. Þá gleymist dagsins amstur og áhyggjur af peningum þegar sest er til borðs á aðfangadagskvöld.
Vona að þið getið nýtt ykkur einhver þessara ráða minna og minni á að ef það er eitthvað sem þið viljið að ég skrifa um sérstaklega eða viljið spyrja mig þá bara senda mér línu :)
Góða stundir