12. desember 2008

Kreppuráð #12

Margir hafa spurt mig að því hvernig börnin, þá sérstaklega unglingarnir, taka því að fá ekki allt eins og hinir krakkarnir, i-pod, gsm-síma og diesel gallabuxur. Ég hef velt því mikið fyrir mér hvers vegna börnin mín heimta ekki þessa hluti og hef komist að eftirfarandi:

Kreppuráð #12 er:

Talið saman

Leyfið börnunum ykkar að vera með í ákvörðunum sem varða fjölskylduna alla. Takið mark á því sem þau hafa að segja.

Ég man t.d. að þegar við vorum búin að safna saman smá aur fyrir nokkrum árum þá settumst við niður með krökkunum og spurðum hvort þau vildu heldur, kaupa íbúð sem allur aukapeningur færi í eða fara til útlanda saman og bíða með íbúðarkaup. Það stóð ekki á svari og var það samþykkt samhljóma að fara tíl útlanda.

Þegar kreppan skall á okkur í haustbyrjun settist ég og maðurinn minn niður með börnunum og útskýrðum fyrir þeim hvað það þýddi. Við sögðum þeim að það væri ekkert að óttast, við myndum alveg plumma okkur en þyrftum að hugsa betur út í hvað peningarnir okkar færu í.

Ég hef alltaf verið hreinskilin við þau án þess þó að vekja hjá þeim ótta.

Þau sáu líka ótal tækifæri í því að við ættum minni pening

Þeim þótti þá líklegt að mamma og pabbi færu sjaldnar út og væru því meira heima. Þeim fannst líka gott að við skyldum ekki vera að vinna því þá værum við heima þegar þau kæmu heim úr skólanum!

Þau hafa aldrei verið kröfuhörð, börnin mín, enda vita þau sem er að við erum engir millar. Ég held líka stundum að það séu frekar foreldrarnir sem haldi að börnin þurfi að eiga þetta og hitt, ekki endilega að börnunum finnist það mikilvægt.

Svo er hægt að versla í outlet 10 ef maður vill kaupa diesel eða önnur álíka merki, enda merkið aðalmálið en ekki verðið. Þá er hægt að versla á útsölum. Eins er hægt að safna fyrir dýru hlutunum saman. Þá sættumst við á að við, foreldrarnir borgum helming ef það, barnið, safnar fyrir hinum helmingnum.

Auðvitað langar þau stundum í eitt og annað sem aðrir eiga. Þannig hafa þau beðið um ýmislegt í gegnum tíðina eins og i-pod og gsm síma en sætta sig fullkomlega við svarið: ,,við getum því miður ekki gefið þér það því við eigum ekki pening. Það þýðir samt ekki að við elskum þig ekki"

Þá svara þau: ,,Auðvitað, ég veit það alveg. Ég elska ykkur líka"

Einn unglingurinn minn segist t.d. helst af öllu vilja kossa og knús í pakkann sinn um þessi jól :)

Rannsóknir hafa sýnt að börn og unglingar vilja umfram allt eiga góð samskipti við foreldra sína. Þeim finnst gott að fá að vera þátttakendur í ákvörðunum heimilisins og vilja að á þau sé hlustað. Samverustundir eins og við matarborðið eða fjölskyldupartý eru þeim dýrmætar. Þá gefur það okkur foreldrum einnig mikið

Ég veit ekki um neinn hlut sem getur komið í staðinn fyrir það :)

5. desember 2008

Kreppuráð #11

Ég ætlaði aldrei að gera það að aðalatvinnu minni að skrifa kreppuráð. Fannst 10 stykki alveg hæfilegt. Þetta kreppuráð er því ekki eins og hin ráðin en byggir á þeim fundum sem ég hef haldið um málið (eða fyrirlestrum eftir því hvernig á það er litið).

Ég hef sumsé farið á þónokkra staði og sagt frá reynslu minni af samdrætti og fjárhagserfiðleikum undir yfirskriftinni: ,,Hagsýni og hamingja - hvernig lifa má af litlu með bros á vör"

Ég hef verið mikið spurð að því hversu miklu skuli eyða í mat og hvernig hægt sé að spara. Ég hef komist að því að ég get komist af með 60.000 krónur í mat á mánuði eða 2000 krónur á dag. Þar er minn sársaukaþröskuldur ef svo má að orði komast.

Matseðill dagsins gæti verið:

Morgunmatur: Hafragrautur
Hádegismatur : Grillað brauð með osti og djús (blandaður frá Egils)
Kaffi : Hrökkbrauð eða brauðbollur með osti og mjólk
Kvöldmatur: Kjúklingapottréttur og hrísgrjón ásamt brauðbollum með smjöri (kaupi frosnar bollur í bónus fyrir lítinn aur). Vatn

Slíkur dagur kostar þá um um 1000 krónur fyrir alla fjölskylduna!

Þá get ég verið með einhvern annan dag þá vikuna matseðil sem kostar 3000 krónur:

Morgunmatur: Cheerios
Hádegismatur: Núðlusúpa og brauðbollur. Vatn
Kaffi: Ristað brauð með osti og tómötum, mjólk eða blandaður djús
Kvöldmatur: Svínakótilettur með kartöflum, gulum baunum og sinnepssósu. Tilboðsgos (oft hægt að kaupa 2 lítra af gosi í Bónus á innan við 100 krónur)

Þannig er hægt að vera með betri máltíðir um helgar og ódýrari á virkum dögum.

Ef ég kaupi einn kjúkling þá dugar það ekki fyrir alla fjölskylduna mína í eina máltíð. Ef ég kaupi hins vegar þrjá kjúklinga dugar það í þrjár máltíðir. Hvernig?

Jú, ég úrbeina þá, bringurnar eru þá í eina máltíð, leggir, vængir og læri í aðra máltíð og svo grilla ég beinagrindina og ,,pilla" kjötið af og nota í pottrétt :)

Auðveldasta leiðin til að skera niður í rekstri heimilisins er að mínu mati í matarinnkaupum. Með skynsemi og skipulagni er sumsé hægt að brauðfæða mína fjölskyldu sem samanstendur af 7 manns með 60.000 krónum og vel það

Ég get komist af með minna en þá fer það aðeins að bitna á magninu. Þegar ég var sem allra blönkust keypti ég nákvæmlega það magn sem á þurfti að halda. Taldi ofan í fjölskylduna. Það þýddi að fjölskyldan varð aldrei pakksödd.

Það er allt í lagi. Er ekki hvort sem er óhollt að borða yfir sig?